Veðurspáin og vísindin
Áramótin 2024/2025
Kæra samstarfsfólk.
FISK Seafood fagnar á þessu ári 70 ára afmæli sínu. Fyrstu skrefin í sögu félagsins voru stigin á Þorláksmessu árið 1955 þegar Fiskiðja Sauðárkróks hf. var stofnuð. Ekki verður annað sagt en að síðan hafi mikið vatn runnið til sjávar í metnaðarfullri uppbyggingu starfseminnar. Við stefnum að því að fagna þessum tímamótum með margvíslegum hætti þegar líður á árið og finna okkur m.a. verðug verkefni til þess að styðja við bæði í starfsmannahópi okkar og nærsamfélagi.
Það hefur auðvitað gengið á ýmsu í þessari löngu sögu og lífið ekki alltaf verið eintómur dans á rósum í rekstrinum. Þegar litið er yfir farinn veg er þó a.m.k. tvennt sem stendur upp úr og allir geta glaðst yfir. Í fyrsta lagi að félagið hafi margfaldað umfang sitt og standi í dag traustum fótum sem eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Hitt atriðið sem ég hef sérstaklega í huga er farsæl sjósókn án stórra óhappa. Vinnslan í landi hefur sömuleiðs verið stóráfallalaus í gegnum þessi mörgu ár. Þetta hefur ekki grundvallast á heppni. FISK Seafood hefur frá upphafi notið þeirrar gæfu að hafa frábært starfsfólk innan sinna raða sem ávallt hefur lagt mikla áherslu á öryggismál allrar starfseminnar.
Á því hefur að sjálfsögðu engin breyting orðið frá því ég settist í stól framkvæmdastjóra FISK Seafood. Ég hef frá blautu barnsbeini alist upp við endalausar umræður og vangaveltur um útgerð, aflabrögð og gæftir. Ekki bara í eldhúsinu heima heldur líka í jólaboðunum, fermingarveislunum og annars staðar þar sem stórir sem smærri hópar fjölskyldunnar komu saman. Mér lærðist það grundvallaratriði fljótt að gæta fyllstu varkárni gagnvart veðravítum og krefjandi vinnuaðstæðum. Í gegnum árin mín í sjávarútveginum hef ég haldið áfram að þroska það leiðarljós að hafa öryggisþætti bæði í veiðum og vinnslu alltaf í forgrunni. Á því sviði má hvorki gefa afslátt af kröfum né spara í tilkostnaði.
Veðrið, og sérstaklega veðurspáin, var alla tíð þungamiðja umræðunnar. Veðurspárnar voru á þeim tíma langt í frá óskeikular og margir reynsluboltarnir lásu á milli línanna í veðurspánum, þekktu „auðu blettina“ sem voru á milli veðurstöðvanna, vissu hvernig veðrið var alltaf á undan áætlun á ákveðnum stöðum úti á sjó en seinna á ferðinni annars staðar o.s.frv. Ég geri ekki lítið úr þessari hæfni ýmissa veðurglöggra manna enn þann dag í dag en vil samt gera stórkostlegar framfarir í veðurspám síðustu árin að sérstöku umtalsefni. Í mínum huga hafa þær haft í för með sér nánast byltingarkenndar breytingar í öryggismálum sjómanna.
Með fullri virðingu fyrir öllu því sem sjávarútvegurinn á heimsvísu hefur þróað í átt til aukins öryggis með betri skipum og búnaði, fræðslu um öryggismál, þjálfun, hvatningu, skráningu vinnuslysa og fleiru, held ég að í öllu sínu látleysi eigi veðurspáin gríðarlega stóran þátt í nýjum veruleika í öryggisumhverfi sjósóknarinnar. Stöðugt betri veðurathuganir og þekking á duttlungum íslenska veðursins á sjó og landi hafa gert spárnar nákvæmari. Það auðveldar alla ákvarðanatöku um hvenær sé óhætt að róa og hvenær sé tímabært að taka upp veiðarfærin.
Gervitunglin leggja ekki síður mikið af mörkum. Úr himinhvolfinu fáum við ekki einungis vitneskju um veðrið nánast á hverjum lófastórum bletti úthafsins heldur einnig t.d. um ölduhæðina, úr hvaða átt hún kemur á hverjum stundarfjórðungi o.s.frv. Þau sjá smæstu atriði úr mörg þúsund kílómetra fjarlægð og greina m.a. hita sjávar, seltumagn og hafstrauma af mikilli nákvæmni. Um leið geta mælingar þeirra gefið vísbendingar um hvar bolfiskur gæti mögulega haldið sig t.d. á hitaskilum eða jafnvel hvar uppsjávarfiskur gæti verið á ferðinni í stórum torfum. Þar til viðbótar má nefna að með GPS staðsetningartækninni komu gervitunglin nánast á einni nóttu í veg fyrir hafvillur og ýmis óhöpp.
Það er ekki hægt að fjalla um framfarir í öryggismálum sjómanna án þess að nefna þyrlurnar. Þær eru í senn sjúkrabíll og björgunarsveit okkar hvar sem sjómenn eru staddir á hafi úti. Það er einlæg ósk mín að landsfeðurnir hafi skilning á mikilvægi þessarar líflínu og tryggi það að Landhelgisgæslan búi hverju sinni yfir fyrsta flokks þyrlum og nægilegum fjölda áhafna til þess að geta verið til taks hvenær og hvaðan sem kallið kemur. Ég átta mig á því að slík viðbragðsstaða alla daga ársins er krefjandi og kostnaðarsöm en tekjur samfélagsins af veiðum sjómanna á hafi úti eru meiri en svo að það sé réttlætanlegt að tryggja þeim ekki eins mikið öryggi og aðstoð og frekast er unnt.
Því miður nýtast hvorki framfarir í veðurspám né tilkoma gervitungla okkur til þess að mæla af nákvæmni stofnstærðir sjávarfangsins í hafinu. Fyrir vikið verða ákvarðanir um aflamark hverju sinni ávallt umdeildar. Kannski verður skoðanaágreiningurinn á milli vísinda og sjómanna um hæfilegan kvóta alltaf til staðar. Væntanlega eru allir sammála um að með meiri hafrannsóknum gætum við dregið úr eilífum þrætum um hvort rétt sé talið í hafinu og gefið í veiðiheimildum. Að sama skapi gætu auknar hafrannsóknir væntanlega svarað því hvers vegna við höfum misst fjölmargar tegundir langt niður fyrir veiðanleg mörk. Um þessar mundir eru t.d. engar, eða a.m.k. afar takmarkaðar, veiðar heimilaðar á úthafskarfa, djúpkarfa, hlýra, sandkola, skötusel, humri, hörpuskel, innfjarðarrækju o.fl. Það er áhyggjuefni að þekking okkar á lífríkinu hafi a.m.k. ekki tilgátur um hvað sé að og hvenær úr muni rætast.
Sama gildir um vísindalega afstöðu til þess hvaða áhrif hvalveiðibann undanfarinna ára hefur haft á ólíka fiskistofna. Getur verið að hvalurinn sé að aféta þorskinn? Getur verið að loðnustofninn líði fyrir fjölgun hvala? Mér finnst afskaplega lítið heyrast frá vísindasamfélaginu um margar áleitnar spurningar af þessu tagi. Ástæðan er væntanlega einfaldlega sú að við höfum ekki haft fjárhagslegt svigrúm til þess að rannsaka þessa þætti. Samt geta verðmætin sem í húfi eru hlaupið á hundruðum milljarða króna.
Ég ber mikla virðingu fyrir vísindalegri fiskveiðistjórnun. Á meðan hafrannsóknir eru ekki óumdeilanlegar tek ég einnig mikið mark á tilfinningu okkar reyndustu sjómanna fyrir stofnstærðum við Íslandsstrendur. Og það er tvímælalaust mjög miður hvað vísindin og reyndustu menn sjómannastéttarinnar tala lítið saman. Það hlýtur að vera tilvalið að færa niðurstöður mælinga, bæði í hafrannsóknarskipum og fiskiskipum, ásamt skoðunum þeirra sem jafnvel hafa eytt allri starfsævi sinni til sjós, nær hvort öðru.
Ég sætti mig samt við niðurstöður vísindaráðgjafarinnar rétt eins og ég hef reynt að laga mig möglunarlaust að ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni í málefnum sjávarútvegsins. Þau eru lýðræðislega kjörin og gera áreiðanlega ávallt sitt besta til þess að stýra þjóðarskútunni til heilla fyrir land og þjóð. Okkur bera að virða bæði umboðið sem þeim er falið af þjóðinni og ákvarðanir þeirra um hvaða stefnu skuli taka. En það verður líka að gera þá kröfu að stóru ákvarðanirnar sem snerta þjóðarhag, t.d. í málefnum sjávarútvegsins, séu aldrei teknar án samtals og samráðs við þá sem best þekkja til. Í þeim hópi er öllum sá einfaldi sannleikur ljós að óhófleg skattlagning dregur úr getu greinarinnar til þess að uppfæra búnað sinn og ógnar um leið samkeppnishæfni á heimsmarkaði.
Umtalsverð hækkun auðlindagjaldsins er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar. Það kallar óhjákvæmilega á enn frekari hagræðingu í veiðum og vinnslu útgerðarinnar. Ef stjórnvöld seilast of langt í þessum fyrirhuguðu hækkunum gæti hagræðingin í einhverjum tilfellum snúist um að fækka skipum og loka fiskvinnslum. Slíkur samdráttur myndi snerta daglegt líf og afkomu fjölmargra sjávarþorpa og bæjarfélaga.
Svo við færum okkur nær FISK Seafood, afkomunni og auðlindagjaldinu ásamt öðrum þáttum rekstursins á nýliðnu ári, má byrja á því að segja að í öllum aðalatriðum hafi starfsemin gengið vel. Við kusum að stíga varlega til jarðar á viðsjárverðum tímum kórónuveirufaraldursins, stríðsátakanna í Úkraínu og lækkandi afurðaverðs á helstu markaðssvæðum okkar. Til viðbótar má nefna að smíðakostnaður nýrra fiskiskipa hefur hækkað verulega síðustu misserin þar sem önnur hver skipasmíðastöð er frátekin fyrir framleiðslu herskipa. Því miður sér ekki fyrir endann á þeirri eftirspurn. Við höfum líka þurft að bíða eftir endanlegri niðurstöðu um tímasetningar við stækkun hafnarinnar sem bæði ræður miklu um stærð nýrra togara og hönnun
hátæknifrystihússins.
Fyrir utan stóru og augljósu þættina sem ég hef þegar nefnt, heimsfaraldur og stríðsátök, vil ég gera eitt atriði að sérstöku umtalsefni. Það fer ekki mikið fyrir því í umræðunni, reyndar alls ekki neitt, en sannar samt máltækið: „Margt smátt gerir eitt stórt.“ Hér á ég við þá óumdeildu staðreynd að verðlag á Íslandi hefur hækkað gífurlega á síðustu árum. Rekstrarkostnaður FISK Seafood er þar ekki undanskilinn. Heilmikið er um það í fréttum þessa dagana að enn eina ferðina þurfi að velta umtalsverðum verðhækkunum út í íslenska verðlagið um nýliðin áramót.
FISK Seafood býr við annan veruleika. Í langan tíma hefur verðið sem við fáum á Evrópumarkaði fyrir frystan þorsk og aðrar afurðir okkar ekki einungis staðið í stað heldur lækkað talsvert síðustu misserin. Viðskiptavinir okkar á Evrópumarkaði, verslanir, veitingastaðir, mötuneyti o.s.frv. láta sér hækkun aðfanga á Íslandi í léttu rúmi liggja og sama gildir um heimsmarkaðinn. Á grundvelli matvælaverðs í sinni víðustu mynd, eða a.m.k. framboðs og eftirspurnar á alls kyns próteini, ákveður markaðurinn verðið og um leið tekjurnar sem við fáum á móti kostnaðinum. Þessi veruleiki á stóran þátt í því að framlegðin frá rekstri FISK Seafood samstæðunnar á nýliðnu ári mun ekki nema um þremur milljörðum króna eins og árin tvö þar á undan, heldur væntanlega ríflega tveimur milljörðum króna. Miðað við óbreyttar veiðar á þessu ári verða auðlindagjöld FISK Seafood um 700 milljónir króna eða u.þ.b. tvær milljónir króna á dag.
Við héldum áfram að auka við aflaheimildir okkar á árinu. Alls keyptum við tæplega 220 tonna þorskígildi og var samanlagt kaupverð þeirra um 760 milljónir króna. Við keyptum einnig dragnótarbátinn Gunnar Bjarnason SH-122 sem gerður hafði verið út frá Ólafsvík og mun leysa Hafdísi SK-4 af hólmi. Þá keyptum við einnig línu- og netabátinn Hafborgu SK-54 og aðrar eignir Lundhöfða ehf. sem rekið hefur starfsemi sína á Sauðárkróki um árabil.
Einnig höfum við lagt af stað í það skemmtilega og brýna verkefni að byggja frystigeymslu við Eyrarveg sem bæði mun nýtast FISK Seafood og Kaupfélagi Skagfirðinga. Það var löngu kominn tími til þess að endurnýja gömlu frystigeymslurnar og nú sér fyrir langþráðan endi á því að þurfa að skylmast með þeim ryðguðu sverðum sem gömlu geymslurnar voru svo sannarlega orðnar. Allar taka þessar framangreindu fjárfestingar mið af því meginmarkmiði okkar síðustu árin að fjárfesta í smáum en öruggum skrefum í auknum umsvifum hér á Sauðárkróki á meðan við bíðum hagstæðra skilyrða til þess að ráðast í stærri verkefnin sem lúta að endurnýjun í togaraflotanum og byggingu hátæknifrystihússins.
Ég vil að lokum óska nýrri ríkisstjórn farsældar í störfum sínum fyrir land og þjóð. Það er sjávarútveginum gríðarlega mikilvægt að innan hennar sé djúpstæð þekking á aðstæðum íslensks sjávarútvegs sem alla daga er í hlutverki Davíðs í baráttunni við Golíat þegar litið er til stærðar útlensku sjávarútvegsrisanna og samkeppninnar við þá á heimsmarkaði.
Og ennþá frekar vil ég að lokum óska starfsfólki okkar farsæls komandi árs með kærri þökk fyrir það liðna.