Öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip
FISK Seafood og Drangey SK-2 eru þátttakendur í verkefni á vegum Samgöngustofu og Siglingráðs um gerð öryggishandbókar fyrir fiskiskip sem byggir á International Safety Management system (ISM) öryggisstaðli. Verkfræðistofan Verkís sér um gerð öryggisstjórnunarkerfisins og skrif öryggishandbókarinnar. Auk Drangeyjar eru Þorbjörninn í Grindavík og Valdimar GK-195 þátttakendur að verkefninu.
Mánudaginn 9. september komu í heimsókn J. Snæfríður Einarsdóttir verkefnastjóri HSE Consulting, Herbert Bjarnason frá Brim (fulltrúi SFS) auk Hilmars Snorrasonar og Ingimundar Valgeirssonar frá Slysavarnaskóla sjómanna til að kynna verkefnið fyrir áhöfn Drangeyjar. Hópurinn fór um borð í Drangey og kynnti sér aðstæður og þann búnað sem skipið hefur upp á að bjóða með leiðsögn frá skipstjórum, vélstjóra og fleirum sem voru viðstaddir.
Verkefnið byggir meðal annars á því að nota breskt forrit sem nefnist Safety Folder til að halda utan um áhættumöt, upplýsingar um áhafnarmeðlimi, skírteini þeirra og skipsins auk þes að halda utan um endurskoðun og fyrningatíma á björgunar- og öryggisbúnaði skipsins. Í forritinu er einnig hægt að skrá slys og óhöpp sem verða um borð og halda viðhaldsbók. Markmið verkefnisins er að móta öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip byggt á ISM staðli, afurð þess verður sniðmát af öryggishandbók fyrir öll fiskiskip og Safety Folder sem hver útgerð aðlagar að sínu.