Kærar þakkir Gísli Svan
Um síðustu mánaðamót lét Gísli Svan Einarsson af störfum hjá FISK Seafood eftir 35 farsæl ár í starfi. Upphafið má rekja til vorsins 1989 þegar Kaupfélagið fékk Gísla, sem þá var kennari við Samvinnuháskólann á Bifröst, til þess að koma norður og halda fyrirlestur um samskipti, þjónustulund og fleiri málefni. Mikil ánægja var meðal þeirra sem sóttu námskeiðið hjá Gísla og úr varð að Gísli var ráðinn í fullt starf hjá Kaupfélaginu í kaffipásu námskeiðsins.
Gísli byrjaði sem starfsmannastjóri hjá Kaupfélaginu en hann færði sig svo fljótlega yfir í hið nýstofnaða Útgerðarfélag Skagfirðings HF og var m.a. farsæll útgerðarstjóri þess í 18 ár og í gegnum alls kyns viðfangsefni og áskoranir undir lok síðustu aldar.
Gísli Svan hefur á þessum langa ferli sínum hér í Skagafirði komið víða við í störfum sínum fyrir FISK Seafood. Síðustu tvö árin hefur hann meðal annars grúskað í sögu félagsins allt frá árdögum þess þegar Fiskiðja Sauðárkróks var stofnuð 1955. Í upprifjun og ritstörfum Gísla um sögu félagsins mun handbragð hans vafalítið sjást um ókomna tíð.
Í kaffiboði sem haldið var honum til heiðurs var Gísli Svan leystur út með gjöfum, þakkað fyrir gott samstarf og óskað velfarnaðar.
Á myndinni hér að ofan eru Þórólfur, Gísli Svan og Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood.