„Þetta er orðið gott“
„Mér líður vel með þessa ákvörðun – þetta er orðið gott“ segir Gylfi Guðjónsson, útgerðarstjóri FISK Seafood, sem um mánaðamótin lætur af störfum eftir rúmlega aldarfjórðung á sjó og ríflega annað eins tímabil í sölu- og markaðsmálum og útgerðarstjórn. „Það er orðið tímabært að rýma til fyrir yngra fólki með nýja þekkingu og hugmyndir. Ég stíg bæði sáttur og saddur frá þessu borði og veit að konan mín fagnar líka þessum tímamótum í lífi okkar. Það er auðvitað í leiðinni margs að sakna og þar hef ég ekki síst í huga það frábæra fólk sem ég hef fengið að vinna með í gegnum þennan langa feril.“
Gylfi er fæddur árið 1955 og fluttist 15 ára gamall ásamt foreldrum sínum og systkinum frá Ísafirði til Skagastrandar þegar faðir hans, hinn landsþekkti skipstjóri Guðjón Ebbi, var ráðinn til Skagstrendings. Þar var hann m.a. skipstjóri á frystitogaranum Örvari HU sem var fyrsti íslenski togarinn sem flakaði aflann um borð.
Krókurinn beygðist snemma hjá Gylfa og Jonna bróður hans, sem nýlega lét af farsælu skipstjórastarfi sínu hjá FISK Seafood. Gylfi var kominn á sjóinn 16 ára gamall. Hann gekk þar í öll störf nema kokkinn og vélstjórann þar til hann fékk réttindin sín og starfaði eftir það sem stýrimaður og skipstjóri fyrir Skagstrending. Fyrir ríflega tuttugu árum færði hann sig yfir á Krókinn bæði í vinnu sinni og búsetu, fyrst sem sölu- og markaðsstjóri FISK Seafood og fljótlega eftir það sem útgerðarstjóri félagsins.
Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood: „Gylfi hefur alla tíð reynst okkur mikill happafengur. Fyrir utan sína djúpstæðu þekkingu á öllu sem tengist sjávarútveginum er hann einstaklega talnaglöggur rekstrarmaður, með stáltaugar þegar brælir á viðskiptahliðinni og næma tilfinningu fyrir því hvernig veiðunum er best háttað hverju sinni. Mér persónulega hefur hann verið ákaflega dýrmæt stoð og stytta í blíðu og stríðu. Ég kveð hann með miklu þakklæti og góðum óskum um bjarta daga framundan.“