Dragnótabáturinn Hafdís fór 15 veiðiferðir í september og landaði ýmist á Húsavík, Sauðárkróki eða í Hafnarfirði en veiðiferðir á Hafdísi taka yfirleitt einn til tvo sólarhringa. Í september landaði Hafdís um 145 tonnum (slægt magn). Uppistaða aflans var skarkoli og ýsa en einnig þónokkuð af sandkola og sólkola. Í heildina samanstóð aflinn af 19 fisktegundum.
“Veðrið var frekar rysjótt, ágætt inn á milli. Bara týpískt haustveður.” Segir Guðmundur Níels Erlingsson, annar skipstjóri Hafdísar. Segir hann september hafa verið týpískan haustmánuð hjá Hafdísi og veiðin hafi bara gengið ágætlega, enda góðir menn í áhöfninni og þetta væri ekki hægt án þeirra.