Drangey SK 2 kom til löndunar á Sauðárkrókshöfn í morgun heildarmagn afla voru tæp 150 tonn, þar af tæp 130 tonn af þorski og tæp 8 tonn af ýsu, minna í öðrum tegundum.
Drangey var meðal annars á veiðum við Ostahrygg og norður af Kolbeinsey.
“Túrinn byrjaði á sköfu á skagagrunni, lítið að frétta, vorum mest á Ostahrygg í góðu veðri og ágætis nuddi af góðum þorsk, þegar hann fór að þynnast þar héldum við á hraunið norðan við kolbeinsey og þar drógum við upp síðustu tylft tonnana.enduðum á skagagrunni í rólegri ýsuveiði.” Sagði Ómar Ísak Hjartarsson, undirstýrimaður.
Drangeyjarmenn létu sér þó ekki nægja að segja frá túrnum í mæltu máli, enda geta þeir ekki verið minni menn en Arnarsmenn, heldur létu bæði ljóð og lag fylgja og í þetta skiptið er textinn ekki saminn af gervigreind. Guðmundur Sveinsson, háseti, gerði sér lítið fyrir og samdi eftirfarandi vísu:
Skriðum frá landi á Skagagrunn
skyldi það trollinu kenna.
Ufsinn nú liggur þar munn við munn
myndi í körin nú renna.
Ufsinn sér hafði brugðið af bæ
brögðótt er við hann sú glíma.
Því skyldi trollið tekið úr sæ
tókum í norður að stíma.
Þorskurinn liggur ef æti er við
því skyldi leitað að lóði.
Við Ostahrygginn ekki var bið
aðgerðin lituð af blóði
Norður við Hraunið nóttin var dimm
niðri þar liggja svörin.
Hentum í tonnin hundrað og fimm
hrúgaðist vel í körin.
Siglum kátir leið í land
á lygnum öldum drafnar.
Okkur fylgi auðnaband
alla leið til hafnar.