Drangey SK 2 landar á Sauðárkróki

Drangey SK 2 kom til löndunar við Sauðárkrókshöfn í morgun, heildarmagn afla var um 138 tonn, þar af um 93 tonn af þorski og um 28 tonn af karfa, minna í öðrum tegundum.

“Við byrjuðum túrinn í vesturhorni Víkuráls þar sem var ágætis veiði til að byrja með, en svo seig þorskurinn niður á verri botn og það gerði verra veður. Þá lentum við í allskonar havaríi, rifum trollið og fleira. Við færðum okkur svo á Þverál á Strandagrunni og tókum nokkur hol þar og enduðum svo á einu togi á Reykjafjarðarál.” Sagði Halldór Þorsteinn Gestsson, skipstjóri.

Vesturhorn Víkuráls, þar sem Drangey reif trollið, liggur ofan við veiðisvæði sem oft er kallað Hampiðjutorgið, en það nafn er tilkomið vegna þess að þegar menn hófu fyrst veiðar á þessu svæði, á seinni hluta áttunda áratugarins, var ekki búið að kortleggja festur almennilega og ekki óalgengt að trollið væri í druslum í öðru hverji holi. Menn höfðu því á orði að enginn græddi á þessum veiðum nema veiðarfæraframleiðandinn Hampiðjan! Þetta svæði er einnig stundum kallað Torg hins Himneska Friðar, einmitt vegna þess að þar er aldrei neinn friður.

(Fróðleiksmoli um Hampiðjutorg er fenginn úr 21. tölublaði Bændablaðsins árið 2019, grein eftir Kjartan Stefánsson).