Heimsókn í Málmey SK 1

Nemendur 4. og 5. bekkjar Varmahlíðarskóla heimsóttu Málmey SK 1 á fimmtudaginn síðastliðinn, en þau hafa verið að læra um hafið, auðlindir og sjávarútveg í skólanum og var þessi vettvangsferð hluti af því námi.

Davíð Þór Helgason, undirstýrimaður, tók á móti þeim og sýndi þeim skipið og sagði þeim frá sjómennsku og ýmsu sem tengist henni, en það vill þannig til að Davíð (ásamt fréttaritara, reyndar) á eina stelpu í hópnum. Hún er öllum hnútum kunnug um borð eftir að hafa fengið að fara í siglingu með pabba sínum, þegar Málmey fór í slipp á Akureyri síðasta sumar, og gat sagt bekkjarfélögum sínum ýmislegt um skipið hans pabba.

Krakkarnir gátu tengt ýmislegt sem þau sáu og heyrðu við námið sitt í skólanum: til að mynda hornafræði, sem þau eru nýbúin að vera að læra um í stærðfræði, en hornafræði er einn af lykilþáttum skipstjórnunar.

“Við fórum í stýrishúsið [brúna] og fengum að sitja í stjórnstólnum, það voru mjög margir takkar í stýrishúsinu og skipið var rosalega stórt, en lyktin var ekkert sérstaklega góð.” Er haft eftir krökkunum um heimsóknina. En þau fengu að skoða allt skipið og voru spenntust fyrir vélinni, brúnni og tómu körunum í lestinni.

Krakkarnir voru mjög áhugasamir og skemmtu sér vel. Einhver höfðu jafnvel orð á því að þau vildu verða sjómenn þegar þau yrðu stór, svo það lítur út fyrir að framtíðin sé björt í sjávarútvegi í Skagafirði.