Drangey SK 2 landar á Sauðárkróki

Drangey SK 2 kom til löndunar við Sauðárkrókshöfn í morgun með tæp 102 tonn af afla. Þar af voru um 70 tonn af þorski, um 15 tonn af ýsu og um 8 tonn af ufsa en minna í öðrum tegundum.

Drangey var á aðallega veiðum við Reykjafjarðarál og Tunguna en stoppaði aðeins á Skagagrunni á heimleiðinni.

“Við byrjuðum túrinn í Reykjafjarðarál ofarlega. Þar var ágætis kropp af góðum þorski aðeins ýsa og ufsi með. Eftir sólarhring þar þá brældi og allan fisk tók undan, þegar við vorum að sigla uppí veðrið þá losnaði skápur með rafgeymum” sagði Ágúst Ómarsson, skipstjóri, en þá var skipinu siglt í höfn til þess að gera við tjónið, sem gekk fljótt og vel og héldu þeir aftur til veiða strax eftir viðgerðina. “…svo var siglt aftur í utanverðan Reykjafjarðarál. Þar fékkst góður afli af ágætis þorski. Síðan var leitað að ufsa og ýsu á Tungu og Skagagrunni. Frekar róleg veiði þar, samt ekki alveg dautt”.