Málmey SK 1 er á leið til löndunar við Sauðárkrókshöfn og er væntanleg klukkan 17:00. Heildarmagn afla er um 99 tonn, þar af um 71 tonn af þorski og um 15 tonn af ýsu. Málmey var meðal annars á veiðum í Reykjafjarðarál og á Tungunni.
Málmey kemur snemma í land úr þessari veiðiferð, en aðspurður sagði Hermann Einarsson, skipstjóri, að skammturinn væri kominn og bræla á leiðinni svo það væri ekkert annað að gera en að koma sér heim bara. Annars sagði hann veiðina hafa gengið mjög vel, þeir hafi fengið lang mest af þorski en aðeins af ýsu með. Veðrið hafi hingað til sloppið til, kvika og 15 m/s vindur.