Drangey SK 2 landar á Sauðárkróki

Drangey SK 2 kom til löndunar við Sauðárkrókshöfn í morgun. Heildarmagn afla í fyrsta túr ársins voru tæp 97 tonn, þar af um 61 tonn af þorski og um 24 tonn af ýsu, en minna í öðrum tegundum.

“Túrinn byrjaði frekar rólega, við tókum eitt hal á Sporðagrunni og héldum svo vestur í Þverál og þar áttum við fínan sólarhring í veiði, þar til umferð skipa fór að aukast í kringum okkur, þá minnkaði veiðin örlítið eins og eðlilegt er. Annars var þetta fínasti túr. Smá barátta við hafís, við vorum að hrekjast svolítið undan ísnum, en jöfn veiði og blíðuveður allan tímann.” Sagði Guðmundur Ágúst Guðmundsson, yfirstýrimaður, sem líkti sjónum við Húnverska heiðatjörn þennan túrinn, þó að vísu hafi verið smá kaldi á landleiðinni.