Drangey SK 2 kom til löndunar á Sauðárkróki á sunnudag, heildarmagn afla var um 77 tonn, uppistaða þorskur og ýsa. Drangey var meðal annars á veiðum við Reykjafjarðarál og Ostahrygg.
“Við fengum mest af ýsunni við Reykjafjarðarál og svo kom þorskskammturinn bara í nokkrum hollum við Ostahrygg” segir Ómar Ísak Hjartarson, undirstýrimaður. Þess má geta að vegna fyrirætlaðrar árshátíðarferðar FISK-Seafood á fimmtudag hafa túraplön skipaflotans raskast, en lokun fyrirtækisins í nokkra daga vegna ferðarinnar krefst mikillar skipulagningar. Aðspurður segir Ómar mikla stemningu í mannskapnum vegna ferðarinnar.