Farsæll SH 30 kom til löndunar við Grundarfjarðarhöfn í morgun. Heildarmagn afla var um 66 tonn, þar af um 19 tonn af þorski, um 19 tonn af skarkola, um 12 tonn af ýsu og um 9 tonn af steinbít, en minna í öðrum tegundum. Farsæll var á veiðum við Flökin og suð-vestur af Bjargi.
Guðmundur Kristján Snorrason segir túrinn bara hafa gengið prýðilega. Þeir hafi haldið sig við Flökin allan tímann í von um að fá kola, en hafi fengið mjög mikið bland. Veðrið hafi verið ágætt, leiðinlegast í gær.
Flökin eru fiskimið vestast á Breiðafjarðar-flákanum, suður af Bjargi, og þau eru kölluð þessu nafni vegna fjölda skipsflaka á svæðinu. En Guðmundur sagði einnig frá því að fyrir mörgum árum síðan lenti Farsæll einmitt í því að festa trollið í skipsflaki á þessu svæði og sátu þeir heillengi fastir.
Skipsflökin sem um ræðir eru óþekkt og illa gekk að finna um þau heimildir, þrátt fyrir fyrirspurnir til þriggja skipstjóra til margra ára. Því viljum við senda boltann yfir til lesenda: Ef þú veist eitthvað um skipsflökin sem gáfu veiðisvæðinu nafnið sitt, endilega sendu okkur línu.