Farsæll SH 30 kom til löndunar í Grundarfirði í morgun, heildarmagn afla voru tæp 63 tonn, mest af ýsu eða um 29 tonn, svo þorskur og karfi. Aðrar tegundir í minna mæli. Farsæll var meðal annars á veiðum á Grunnkanti, Hornbanka og Straumnesbanka.
Guðmundur Kristján Snorrason sagði að það hefði verið fremur erfitt að eiga við þorskinn og því hafi þeir aðallega verið í ýsu þennan túrinn. Veðrið hafi verið fínt nema einn dag, en þá komu þeir sér í skjól við Hornbanka.
“Það var því óvenju mikið flakk á okkur Farsælsmönnum þennan túrinn, komnir langleiðina inn í Skagfirskt efnahagssvæði”, sagði skipstjórinn.