FISK Seafood kaupir hlut í Steinunni hf. í Ólafsvík
Gengið hefur verið frá samkomulagi um kaup FISK Seafood ehf., í gegnum dótturfélag sitt, á 60% eignarhlut í útgerðarfélaginu Steinunni hf. í Ólafsvík sem gert hefur út vertíðarbátinn Steinunni SH-167. Fimm bræður og fjölskyldur þeirra hafa rekið félagið í u.þ.b. hálfa öld. Eftir kaupin munu tveir bræðranna, þeir Brynjar og Ægir Kristmundssynir, eiga ásamt fjölskyldum sínum sitt hvorn 20% eignarhlutinn í Steinunni hf. og halda áfram störfum sínum sem skipstjóri og vélstjóri Steinunnar SH-167. Aðrir eigendur selja hluti sína í félaginu. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsemi félagsins í Ólafsvík aðrar en þær sem lúta að frekari uppbyggingu og sóknarfærum.
Markmið FISK Seafood með kaupunum er að styrkja umsvif sín í útgerð vertíðarbáta og hafa nokkur skref verið stigin í þá átt á undanförnum misserum. Nálægð Snæfellsnessins við matarkistur Breiðafjarðar er afar heppileg til slíkrar starfsemi. Öflugur rekstur dótturfélags FISK Seafood, Soffaníasar Cecilssonar ehf. í Grundarfirði, gerir frekari uppbyggingu á þessum slóðum enn fýsilegri. Það er skoðun stjórnenda FISK Seafood að Snæfellsnesið sé í raun eitt atvinnusvæði og búi yfir miklum tækifærum til að styrkja stöðu sína á sviði fjölbreytts sjávarútvegs á komandi árum.
Eftir meira en fimmtíu ára samfellda sjósókn þótti eigendum Steinunnar hf. kominn tími til þess að stokka upp spilin, sækja sér liðsstyrk og bæta vindi í seglin. Þegar tækifæri gafst til þess að snúa bökum saman með þeim framsæknu hugmyndum sem FISK Seafood hefur oft tjáð sig um þegar kemur að útgerð á Snæfellsnesi gengu viðræður hratt fyrir sig. Það er mikill metnaður af hálfu beggja aðila til þess að blása til frekari sóknar í útgerðinni frá Ólafsvík og efla um leið atvinnustarfsemi á Snæfellsnesinu öllu.
Brynjar og Ægir Kristmundssynir: „Við erum þakklátir fyrir það að þessi langi rekstur fjölskyldunnar hafi nú fengið tækifæri til kraftmikillar endurnýjunar. Innkoma Friðbjörns Ásbjörnssonar með mikla þekkingu á aðstæðum útgerðarinnar á Snæfellsnesi og hið sterka bakland FISK Seafood gefur góð fyrirheit um framhaldið. Samstarf okkar er ekki eingöngu grundvallað á metnaðarfullum markmiðum heldur einnig langri vináttu héðan af nesinu og gagnkvæmu trausti. Það skiptir miklu máli.“
Friðbjörn Ásbjörnsson: „Þetta er stórt og mikilvægt skref fyrir FISK Seafood í sókn sinni til aukinnar fjölbreytni í útgerð, vinnslu og sölu íslensks sjávarfangs. Við lítum á Snæfellsnesið sem mikilvægan hlekk fyrir áframhaldandi sókn okkar í sjávarútveginum og fyrir mig persónulega er auðvitað ánægjulegt að koma með þessum hætti til baka á æskustöðvarnar. Til viðbótar er ég viss um að það verður ákaflega lærdómsríkt að vinna með þeim bræðrum. Þeir hafa sótt sjóinn á þessum slóðum af miklu harðfylgi og hafa þekkingu og áræði sem ég hef dáðst að í áratugi. Steinunn SH 167 hefur verið með aflahæstu bátum landsins í langan tíma og það er mikið tilhlökkunarefni að koma að þessari öflugu útgerð frá Ólafsvík á komandi árum.“
Steinunn SH 167 er 153ja rúmlesta dragnótarbátur, smíðaður árið 1971 hjá Stálvík í Garðabæ. Fiskveiðikvóti félagsins er alls ríflega ellefu hundruð tonn í fimmtán tegundum, m.a. um 850 tonn í þorski auk ýsu, ufsa, skarkola o.fl. FISK Seafood greiðir ríflega 2,5 milljarða króna fyrir eignarhlut sinn í Steinunni hf. og eru viðskiptin gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.