Fimmtudaginn 20. nóvember fékk FISK Seafood góða heimsókn frá meðlimum í Rótarýklúbbi Sauðárkróks. Gestirnir töldu um 20 manns og fengu þeir kynningu á starfsemi fyrirtækisins og framtíðarsýn frá framkvæmdastjóranum Friðbirni Ásbjörnssyni og Kristni Kristóferssyni, fjármálastjóra. Þá fengu gestirnir að gæða sér á veitingum sem Ólöf Ásta Jónsdóttir, matráður, töfraði fram eins og henni einni er lagið.
Ómar Bragi Stefánsson, meðlimur klúbbsins, sagði þau hafa fengið frábærar móttökur og væru hæstánægð með heimsóknina, en Rótarýklúbburinn leggur sig fram um að fræðast um fyrirtæki og starfsemi í samfélaginu og fer annað slagið í heimsóknir sem þessar til þess að kynnast fyrirtækjum á svæðinu betur. Rótarýklúbbur Sauðárkróks telur 25 félaga og heldur vikulega fundi. Markmið klúbbsins eru að fræðast um nærumhverfi sitt og að láta gott af sér leiða.