Heimsókn í Drangey SK 2 – FNV/Erasmus+

Í dag fengu 16 nemendur og 6 kennarar leiðsögn um Drangey SK 2. Hópurinn, sem samanstendur af nemendum og kennurum frá Íslandi, Tékklandi, Spáni og Póllandi, er að vinna verkefni á vegum Erasmus+ sem fjallar um alþjóðlegar upplýsingatæknikeppnir til að efla gæði framhaldsskólamenntunar. Markmið verkefnisins er að auka færni nemenda bæði í upplýsingatækni og ensku.

Nemendur fengu kynningu á nýjasta skipi FISK-Seafood, Drangey SK 2, sem var smíðað árið 2017. Þau fengu leiðsögn um skipið, en það er búið ofurkælibúnaði í vinnsludekki og nýjustu tækni í brúarbúnaði. Hópurinn fékk einnig að skoða annan aðbúnað skipsins, eins og líkamsrækt, eldhús og káetur. Andri Már Welding, stýrimaður skipsins og Óttar Ásbjörnsson útgerðarstjóri fyrirtækisins sáu um leiðsögnina, auk þess sem Jón Sigurjónsson, kokkur, og Jón Anton Valdimarsson, háseti, sögðu frá lífinu á sjó.