Málmey SK 1 komin í jólafrí

Málmey SK 1 kom til löndunar á Sauðárkrókshöfn núna í morgun, eftir síðasta túr fyrir jól. Heildarmagn afla voru um 96 tonn, þar af voru um 89 tonn af þorski.

Málmey var meðal annars á veiðum við Sporðagrunn og Sléttugrunn og sagði bátsmaður veiðiferðarinnar, Davíð Þór Helgason, að veiði hefði bara gengið ágætlega og veður hafi verið þokkalegt allan tímann.

Skipverjar hentu upp jólaseríu í blankalogni á leið inn fjörðinn og er skipið tilbúið fyrir jólastopp, þó það verði stutt í ár þar sem flest öll ísfiskiskip FISK Seafood fá að taka síðasta túr ársins á milli jóla og nýárs.