Málmey SK 1 landar á Sauðárkróki

Málmey SK 1 kom til löndunar við Sauðárkrókshöfn í morgun. Heildarmagn afla voru tæp 93 tonn, þar af rúm 67 tonn af þorski og rúm 8 tonn af ufsa, minna í öðrum tegundum.

“Þessi túr gekk bara ótrúlega vel. Það var ágætis veður, smá kaldi annað slagið. Þetta var stuttur túr og það var eiginlega bara einn sólarhringur, vestan við Hala, sem reddaði túrnum.” Sagði Hermann Einarsson, skipstjóri.

Á kantinum vestan við Hala lentu þeir í fallegu veðri og sendu myndbönd í land af hungurdiskum, sem er ákveðið form hafíss. Um hungurdiska segir Vísindavefurinn:

“Hringhreyfingar (hvirflar) orðnar til fyrir tilverknað vinds, strauma og undiröldu valda því að diskar verða til. Sama form getur orðið til í straumvötnum, en munurinn þó oftast sá að straumhvirflar þar eru oft fastir á sama stað. Það veldur því að slíkir diskar geta orðið furðu reglulegir, enn reglulegri heldur en á sjó. Eins geta þeir orðið mjög stórir, jafnvel tugir metra í þvermál við bestu aðstæður. Trúlega eru slíkir diskar í straumhvirflum þykkari við jaðrana heldur en í miðju vegna þess að þar slettist mest upp á þá.”

Rúnar Kárason, háseti, tók myndbandið sem fylgir.