Málmey SK 1 landar á Sauðárkróki

Málmey SK 1 kom til löndunar á Sauðárkrókshöfn í morgun með um 116 tonn af fiski. Þar af voru um 82 tonn af þorski og um 21 tonn af ýsu, en minna í öðrum tegundum.

Málmey hóf túrinn í Kantinum vestan við Hala og svo í Heiðardalnum sem er kallaður þessu nafni vegna þess hve auðvelt er að toga þar klukkutímunum saman án þess að lenda í nokkrum vandræðum með trollið og er það nafn að öllum líkindum tekið úr dægurlaginu “Ég er kominn heim í Heiðardalinn”. En þrátt fyrir þessa nafngift var veiðin þar helst til róleg.

Málmey hélt því austur að Þverál þar sem var ágætis veiði, góð blanda af þorski og ýsu, en þónokkur hafís. Þá hélt veiðin áfram við Strandagrunn þar sem var fín þorskveiði. Veðrið lék við Málmeyjarmenn mest alla veiðiferðina, fyrir utan smá kalda síðasta daginn, að sögn Davíðs Þórs Helgasonar, undirstýrimanns, sem tók einnig myndina sem fylgir fréttinni af hafís við Þverál.