“Nú fer ég heim að lesa ljóð”

Okkar einstaki samstarfsmaður til margra áratuga, Guðrún Sighvatsdóttir, sem við öll þekkjum sem Gurru, lætur af störfum í dag eftir meira en þrjátíu ára viðveru á skrifstofu FISK Seafood. Og hún velur daginn af vandvirkni. Í fyrsta lagi er þetta 65. afmælisdagurinn hennar og í öðru lagi leggur hún niður störf á 50 ára afmælisdegi kvennafrídagsins.

„Það er langt síðan ég ákvað að þetta væri rétti dagurinn til þess að láta gott heita,“ segir Guðrún. Hún var í tólf ár á skrifstofu kaupfélagsins áður en hún „skrapp í fimm ár“ til Siglufjarðar en kom svo aftur á Krókinn í til þess að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem blasti við í sjávarútvegi Sauðkrækinga.

„Ég hef alla tíð verið stolt af því að vinna hjá svo flottu og öflugu fyrirtæki sem FISK Seafood er. Og ekki minnkaði ánægjan fyrir nokkrum dögum þegar það gerðist í fyrsta sinn, á sjötíu ára afmæli félagsins, að allt starfsfólk samstæðunnar hittist í ævintýralegri árshátíðarferð. Ég hef verið hluti af mjög góðum og samstilltum hópi sem ég mun auðvitað sakna um leið og ég óska honum og fyrirtækinu alls hins besta um ókomna tíð,“ segir Gurra.

Hjá Guðrúnu taka núna við nýir tímar og við kveðjum hana með söknuði um leið og við þökkum henni fyrir allt hennar mikla og góða starf. Hún er hins vegar greinilega full tilhlökkunar að heilsa og njóta efri áranna og einbeita sér að varðveislu heilsunnar ásamt því að sinna alls kyns grúski og ljóðalestri. Sjálf setti hún nýlega saman þessa vísu:

Nú fer ég heim að lesa ljóð

 og lifa í takti nýjum, 

þakka af alhug árin góð 

og kveð með óskum hlýjum.

 

Við tökum undir þessa góðu kveðju og óskum Gurru alls hins besta með kærri þökk fyrir samstarfið.

Fyrir hönd samstarfsfélaga,

Friðbjörn Ásbjörnsson