Túrinn í heild var rétt tæpir fjörtíu dagar og slippur næst á dagskrá.

 In Arnar HU 1, Fréttir

Frystitogarinn Arnar HU1 kom til hafnar á Sauðárkróki. Aflinn um borð samsvarar um 539 tonnum úr sjó, þar af um 451 tonn af þorski.
Aflaverðmæti er um 202 milljónir.

Heimasíðan hafði samband við skipstjóra Arnars og spurði hann um túrinn.

„Við vorum þrjátíu og einn dag á veiðum, en túrinn í heild var rétt tæpir fjörtíu dagar.

Siglingin á miðin tók fjóra daga en heimleiði tæpa fimm. Veiðarnar gengu almennt rólega en uppistaða aflans er þorskur. Við vorum á veiðum í blíðu veðri við Rússland. Skipið er á leið í slipp núna og verður brottför í næstu veiðiferð eftir að þeirri vinnu lýkur“ segir skipstjórinn.

Að lokinni löndun heldur Arnar HU1 í slipp hjá Slippnum á Akureyri, þar verður stærsta verkefnið að skipta um frystikerfi þar sem núverandi kerfi og kælimiðill verða fjarlægð og nýtt kerfi með umhverfisvænni kælimiðli sett í staðinn, það verkefni er unnið í samstarfi við Kælismiðjuna FROST sem hefur séð um hönnun og samsetningu kerfisins. Einnig verður farið í hefðbundið viðhald þar sem áætlað er að skrokkur verði þykktarmældur, aðal og ljósavélar fari í upptekt, leguskipti verði í gír og togvindum, farið verði í viðhald á skrúfubúnaði, skipið verður málað að utan og innan ásamt öðrum hefðbundnum verkefnum. Einhver endurnýjun verður á búnaði og má til dæmis nefna að nýr M500 hausari frá Vélfag mun senda í land roskinn Baader hausara sem hefur þjónað okkur dyggilega síðustu ár.

Start typing and press Enter to search

Málmey