„Veiðarnar gengu ágætlega í byrjun“
Frystitogarinn Arnar HU1 kom til hafnar á Sauðárkróki. Aflinn um borð samsvarar 630 tonnum upp úr sjó, þar af 180 tonnum af gullkarfa og 154 tonnum af ufsa. Aflaverðmæti er um 200 milljónir. Heimasíðan hafði samband við Guðmund Henry Stefánsson skipstjóra og spurði hann út í túrinn.
„Við fórum frá Sauðárkróki 3. janúar, byrjuðum á Kolkugrunni og höfum verið að veiðum alveg suður á Selvogsbanka. Veiðarnar gengu ágætlega í byrjun en rólega seinni hluta veiðiferðarinnar. Landað var 19.400 kössum. Veðrið var fínt framan af en leiðinlegt seinni hluta veiðiferðarinnar,“ sagði Guðmundur Henry.