Ný flökunarvél og hausari í landvinnslu.
Miklar framkvæmdir hafa verið gerðar í frystihúsi Fisk Seafood á Sauðárkróki á meðan vinnslan var í sumarstoppi. Þar ber helst að nefna uppsetning á nýjum hausara og nýrri flökunarvél frá Curio. Millikælir var tvöfaldaður að stærð með því að lengja hann í norður. Eftir stækkun verður auðveldlega hægt að geyma í honum allan millilager í þann tíma sem þörf er á hverju sinni. Einnig var sett upp ný lína til að íshúða frosin flök, línan er frá Niverplast í Hollandi.
Allar ammoníakslagnir innanhúss voru rifnar niður og nýjar lagnir lagðar upp á þaki. Skemmdir á gólfum voru lagfærðar, veggir og loft máluð þar sem þörf var á. Öllu þessu fylgir svo lítilsháttar breyting á uppstillingum snyrtilína og færibanda, ásamt lagfæringum á vatns- og raflögnum.
Þá hafa einnig verið keyptar tvær nýjar snyrtilínur frá Marel, ásamt stórum flakaflokkara og lítilli pökkunar/flokkunarlínu fyrir fersk flök. Áætlað er að ráðist verði í þær framkvæmdir sumarið 2020.