Hlutverk

Atvinnurekandi  ber ábyrgð á að koma á skipulegu vinnuverndarstarfi sem tekur til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna.

Starfsmenn eiga að taka þátt í samstarfi um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustaðnum. Þeim er einnig skylt að nota verkfæri og annan búnað á réttan hátt, þ.m.t. persónuhlífar og allan annan öryggisbúnað. Jafnframt eiga starfsmenn að upplýsa atvinnurekanda um allar aðstæður við vinnu þar sem ljóst má telja að öryggi og heilbrigði sé hætta búin.

 

Stefna

FISK trúir því að öflugar forvarnir séu lykillinn að því að ná þeim árangri að gera FISK að slysalausum  vinnustað.

Óheimilt er með öllu að vera undir áhrifum áfengis, annarra vímuefna eða lyfja þegar komið er til vinnu. Öll neysla og meðhöndlun áfengis og fíkniefna er bönnuð á vinnustöðvum og lóðum FISK og tóbaksneysla er einungis leyfð á sértilteknum stöðum.

FISK stefnir að því að allir starfsmenn FISK verði öryggisfulltrúar og beri að gera viðvart um þau atriði sem betur mega fara eða hætta stafar af.

Tekin verði upp  atvikaskráning þar sem minni og næstum því óhöpp eru skráð,en tilgangur þess er að unnið verði að úrbótum einsog hægt er til að koma í veg fyrir slys. Sérstaklega skal tekið fram að atvikaskráning þessi mun ekki á neinn hátt notast gegn starfsmanni eða starfsöryggi hans.

Vinna áhættumat fyrir allar vinnustöðvar (deildir) fyrirtækisins, úrbætur verði gerðar í framhaldinu og áhættumat yfirfarið a.m.k. 1 sinni á ári.  Áhættumatið skal ná til vinnusvæða, ástandi véla, tækja, öryggisbúnaðar og hlífðarfatnaðar.

Tryggt verði að starfsmenn fái þjálfun og kennslu á nýjan búnað og ef breytingar verða á verklagi.

Öryggistrúnaðarmaður/menn verði á öllum vinnustöðvum en auk þess er starfandi öryggisráð FISK sem ber ábyrgð á að öryggisstefnunni sé framfylgt.

 

Markmið

Öryggismarkmið eru sett sem stjórntæki til að hægt sé að skipuleggja, stjórna og mæla árangur á þeim þáttum sem hafa áhrif á öryggi.

Öryggisstefna FISK er hluti af gæðastefnu fyrirtækisins.

FISK leggur áherslu á að öryggismál starfsmanna séu ávallt í fyrirrúmi.

FISK stefnir að slysalausu vinnuumhverfi.

Að tryggja virka þátttöku og stuðning stjórnenda og starfsmanna við öryggismál innan fyrirtækisins

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter