Stjórnarháttaryfirlýsing er uppgjör stjórnar fyrir liðið starfsár og er birt á heimasíðu félagsins. Eftirfarandi stjórnarháttaryfirlýsing á við um starfsemi ársins 2022 og er birt samhliða ársreikningi fyrir það ár.
Stjórnarhættir FISK Seafood ehf. eru í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um starfsemi félagsins, s.s. ákvæði laga nr. 3/2006 um ársreikninga og laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sem aðgengileg eru á vef Alþingis www.althingi.is. Stjórnarhættir félagsins eru samkvæmt Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, 6. útgáfu, gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ Ísland hf. og Samtöku Atvinnulífsins.
Stjórnarháttayfirlýsing þessi er þáttur í innleiðingu góðra stjórnarhátta hjá félaginu með það fyrir augum að styrkja innviði þess og auka gagnsæi í starfseminni. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að vandaðri stjórnun og ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum á milli eigenda, stjórnar, stjórnenda og annara hagaðila.
Í samþykktum félagsins, sem voru uppfærðir 14. janúar 2019 er nánar kveðið á um fyrirkomulag í starfsemi félagsins.
Rekstur FISK Seafood
FISK Seafood er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði. Félagið leggur áherslu á að viðhafa og fylgja eftir skýrum ferlum og eftirlitskerfum svo að tryggt verði að rekstur félagsins uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglum á hverjum tíma.
Stjórnendur félagsins viðhafa virkt eftirlit með áhættuþáttum sem félagið býr við, setja viðmið um áhættutöku og hafa eftirlit með henni. Aðferðir við áhættustýringu eru yfirfarnar reglulega til að endurspegla breytingar á markaðsaðstæðum og starsemi samstæðunnar
Til staðar eru stefnur og markmið vegna öryggis-, siðferðis-, samfélags-, jafnlauna-, sjálfbærni-, umhverfis- og gæðamálum. Félagið hefur hlotið Marine Stewardship council (MSC) vottun á sviði rekjanleika afurða. Einnig er félagið með virka Sedex vottun og jaflaunavottun kv. ÍST85:2012 staðli.
Innra eftirlit, áhættustýring og árangursmat
Ársreikningur samstæðunnar er gerður í samræmi við lög um ársreikningar. Stjórn og framkvæmdastjóri FISK Seafood leggja áherslu á vöktun og eftirfylgni í áhættustjórnun félagsins. Áhættustjórnun felur í sér reglulegt innra eftirlit þar sem fylgst er með, og fjárhagslegar áhættur í rekstri greindar og kynntar fyrir stjórn á stjórnarfundum. Helstu fjármálalegu áhættur sem hafa áhrif á félagið eru gjalmiðlaáhætta, vaxtaáhætta og lausafjáráhætta.
Innra eftirlit FISK Seafood byggir á skýru skipulagi og aðgreiningu starfa. Reglubundin uppgjör eru mikilvægur hluti innra eftirlits og er fylgst vel með gæðum upplýsinga og helstu kerfa. Stjórn FISK Seafood ber ábyrgð á innra eftirliti en endurskoðunarnefnd starfar í umboði stjórnar og fylgist m.a. með skilvirni innra eftirlits til samræmis við skyldur sínar.
Á árinu 2022 komu ekki upp nein frávik frá leiðbeiningum um góða starfshætti. Einnig voru engin mál vegna brota á lögum og eða reglum sem viðeigandi eftirlits- og/eða úrskúrðaraðilar hafa ákvarðað.
Stjórn og starfsreglur stjórnenda
Í stjórn FISK Seafood eru fimm stjórnarmenn og fimm til vara. Stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn og fer kosning fram á aðalfundi félagsins. Stjórn ber ábyrgð á því að starfsemi félagsins sé í samræmi við lög og reglur sem um félagið gilda og góða viðskipta- og stjórnarhætti. Stjórnin sinnir stefnumótun og töku meiriháttar ákvarðana í rekstri félagsins í samræmi við starfsreglur stjórnar. Stjórn skal einnig hafa eftirlit með bókhaldi og fjárreiðum félagsins. Í stjórn félagsins sitja þrír karlar og tvær konur og uppfyllir félagið því ákvæði laga um kynjahlutföll í stjórnum stórra félaga.
Stjórn og framkvæmdastjóri félagsins eru ábyrg fyrir því að til staðar sé fullnægjandi innra eftirlit og áhættustýring hjá félaginu. Markmið stjórnar með innra eftirliti og áhættustýringu er að stuðla að því að félagið nái markmiðum sínum vaðandi tilgang og skyldur félagsins, afkomu, áreiðanleika fjárhagsupplýsinga og séu í samræmi við lög og reglur.
Stjórn og starfsmenn skulu starfa að heiðarleika og heilindum, kynna sér vel þau lög og reglur sem gilda um starfsemi félagsins og hafa skilning á hlutverki sínu og ábyrgð samkvæmt starfsreglum stjórnar.
Fundaráætlun stjórnar fyrir næsta starfsár liggur fyrir að aðalfundi loknum. fundarboð vegna stjórnafunda er sent á stjórnendur félagsins með tölvupósti með hæfilegum fyrirvara fyrir hvern fund. Stjórnarformaður stýrir fundum og fudargerðir eru samþykktar af stjórn og framkvæmdastjóra.
Stjórnin hefur sett sér starfsreglur þar sem meðal annars er að finna ákvæði um skiptingu starfa innan stjórnar, verksvið stjórnar, stjórnarformanns og framkvæmdarstjóra, verklag og reglur um fundarsköp, upplýsingagjöf og fleira. Hver stjórnarmaður skal kom í veg fyrir að málefni þeirra, hvort heldur þau eru persónulegs eða viðskiptalegs eðlis, leiði til beinna eða óbeinna hagsmunaárekstra milli hans og félagsins samkvæmt ákvæðum starfsreglna stjórnar. Gildandi starfsreglur stjórnar voru samþykktar þann 14. janúar 2019.
Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins. Formaður stjórnar er málsvari hennar og kemur fram fyrir hennar hönd varðandi málefni félagsins, nema hún ákveði annað. Einnig kemur formaður fram út á við fyrir hönd félagsins, ásamt framkvæmdastjóra í samræmi við það sem almennt tíðkast og eftir aðstæðum hverju sinni.
Á starfsárinu 2022 voru haldnir 12 stjórnarfundir. Framkvæmdastjóri og fjármálastjóri sitja stjórnarfundi og ritar fjármálastjóri fundargerðir stjórnarfunda.
Skipan stjórnar FISK Seafood 2021-2022
Þórólfur Gíslason, fæddur 1952 hefur setið í stjórn FISK Seafood frá árinu 1989 og er stjórnarformaður félagsins. Þórólfur er með stúdentspróf frá Samvinnuskólanum á Bifröst og hefur starfað sem Kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga síðan 1988. Þórólfur hefur víðtæka stjórnunar og rekstrarreynslu.
Ingileif Oddsdóttir er fædd 1964 og hefur setið í stjórn FISK Seafood frá árinu 2011. Ingileif er með BA-gráðu í sálfræði og kennsluréttindi í uppeldis- og kennslufræðum, meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf og með MA gráðu í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur starfað sem skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra frá árinu 2011. Áður hafði hún starfað hún sem framhaldsskólakennari og náms- og starfsráðgjafi.
Bjarni Maronsson er fæddur 1949, hann hefur setið í stjórn FISK Seafood frá árinu 2011, fyrst sem varamaður í stjórn en aðalmaður síðan 2012. Bjarni er með B.Sc. próf í búvísindum frá Bændaskólanum á Hvanneyri, auk þess að vera búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal. Bjarni er komin á eftirlaun en áður starfaði hann sem héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Norðurlandi vestra, sem starfsmaður Búnaðarsambands Skagfirðinga auk kennslu og fleirri verkefna tengdum landbúnaði og bústörfum.
Herdís Á Sæmundardóttir er fædd 1954, hún hefur setið í stjórn FISK Seafood frá árinu 2013. Herdís er með MA gráðu í opinberri stjórnsýslu og hefur starfað sem sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu Skagafirði frá 2008. Áður hefur hún starfað sem fræðslustjóri hjá sveitarfélaginu Skagafirði auk þess að hafa gengt stöðu stjórnarformanns Byggðastofnunar og verið formaður ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs Sveitarfélaganna.
Sigurjón R. Rafnsson er fæddur 1965 og hefur verið aðalmaður í stjórn FISK Seafood frá árinu 1996. Sigurjón er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal og viðskiptafræðingur með cand.oecon. gráðu frá Háskóla Íslands. Sigurjón hefur starfað frá 1993 hjá Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og verið aðstoðarkaupfélagsstjóri frá árinu 1995. Sigurjón hefur víðtæka rekstrarreynslu hjá KS og dótturfélögum og einnig sem stjórnarmaður í mörgum fyrirtækjum.
Í varastjórn sitja Pétur Pétursson, Guðrún Sighvatsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Hjörtur S. Geirmundsson og Viggó Jónsson. Bakgrunnur, menntun og aldur stjórnarinnar er fjölbreyttur og margvíslegur og hafa stjórnarmenn víðtæka reynslu.
Friðbjörn Ásbjörnsson er framkvæmdastjóri FISK Seafood. Hann er fæddur árið 1984 og uppalin við sjóinn á Snæfellsnesi. Friðbjörn brautskráðist frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla og hefur m.a. lokið námi við Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík fyrir stjórnendur í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Friðbjörn er með skipstjórnar- og vélstjóraréttindi. Hann hóf ásamt bræðrum sínum störf við útgerðarfyrirtæki foreldra sinna, Nesver, strax á unglingsárum. Meðfram námi sínu til stúdentsprófs og að því loknu starfaði hann einnig að uppbyggingu og rekstri fiskmarkaða og vann við kvótamiðlun um árabil. Friðbjörn hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Soffaníasar Cecilssonar ehf. frá 2017 og framkvæmdastjóra FISK Seafood frá 2018 eftir að hafa starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá félaginu.
Stjórn félagsins hefur hingað til hvorki talið þörf á að skipa tilnefningarnefnd né starfskjaranefnd og hefur sjálf séð um hlutverk þeirra. Endurskoðunarnefnd FISK Seafood er undirnefnd stjórnar félagsins og er skipuð af henni í samræmi við IX. kafla A. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Endurskoðunarnefnd leitast við að tryggja gæði ársreikninga og annarra fjármála¬upplýsinga félagsins og óhæði endurskoðenda þess . Nefndin hefur sett sér starfsreglur. Eftirfarandi einstaklingar skipa endurskoðunarnefnd: Gunnar Þór Ásgeirsson (formaður), Ingileif Oddsdóttir og Herdís Á Sæmundsdóttir.
Stjórnháttaryfirlýsing þessi hefur verið sett saman eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti félagsins til viðskiptavina, félagsmanna, eftirlitsaðila og annarra hlutaðeigandi.