Afhending áhorfendastúku á Sauðárkróksvelli

 Í Fréttir

 

 

Ávarp Björns Jónassonar sem flutt var við afhendingu stúkunnar.

„Ágætu knattspyrnukonur, Skagfirðingar og aðrir gestir.

Stúkan sem við vígjum í dag er gjöf frá FISK Seafood og starfsfólki félagsins. Það er væntanlega af því að ég hef verið til sjós hér í Skagafirði nánast frá því ég man eftir mér sem mér var falið að standa hér vaktina fyrir hönd starfsfólksins og framkvæmdastjórans, Friðbjörns Ásbjörnssonar, sem gat því miður ekki verið með okkur við þessa athöfn. Hann bað fyrir góðar kveðjur, sagðist verða með okkur í anda og ekki síður með stelpunum í leiknum hér á eftir.

FISK stúkan er komin á sinn stað vegna þess að meistaraflokkur kvenna í Tindastóli er kominn þangað líka, þ.e.a.s. í efstu deild Íslandsmótsins. Án stúku fær liðið einfaldlega ekki að leika á heimavelli sínum hér á Króknum og þess vegna þurfti að hafa hraðar hendur þegar liðið náði þessum glæsilega árangri síðastliðið sumar og skrifaði um leið nýjan kafla í knattspyrnusögu félagsins.

Stökkið upp í efstu deild var tekið í krafti öflugrar liðsheildar. Metnaðurinn og leikgleðin fóru ekki framhjá neinum sem fylgdist með. Þetta flotta lið hefur svo sannarlega lagt mikið af mörkum fyrir stemninguna hér í bænum og mun vafalaust gera það áfram enda þótt róðurinn fyrir nýliða í efstu deild sé væntanlega alltaf erfiður.

Þetta framlag FISK Seafood er líka öflugri liðsheild, metnaði og mikilli leikgleði að þakka. Hópurinn okkar er fullur áhuga og nýtur þess að vinna saman að því að afla tekna og skapa verðmæti sem efla starfsemina og nýtast samfélagi okkar með svo margvíslegum hætti. Forsendan er að fá fisk í trollið, vinna hann af fagmennsku og koma honum í toppstandi á heimsmarkaðinn. Öðruvísi verða engin verðmæti til.

Stundum er sagt að margar hendur vinni létt verk. Það sannast meðal annars í fjármögnun á þessari myndarlegu stúku sem við eigum vonandi eftir að njóta í langan tíma. Það sannast líka í þeim árangri sem meistaraflokkurinn okkar hefur náð á undanförnum árum. Þar eiga stelpurnar sjálfar auðvitað stóran þátt en umgjörðin, yngri flokka starfið, sjálfboðavinna forystumanna, foreldra og tryggra félagsmanna er aflvakinn sem ávallt ræður úrslitum um hvernig til tekst.

Bygging stúkunnar er grundvölluð á öflugu samstarfi atvinnulífsins, sveitarfélagsins og Tindastóls. Hver einasti íbúi á svæðinu hefur lagt hönd á plóg. Ég óska þeim öllum til hamingju með daginn.

Ég vil biðja sveitarstjórann okkar, Sigfús Inga Sigfússon, um að taka við þessari gjöf frá FISK Seafood og starfsfólki félagsins. Það er von okkar að þessi stúka sem tekur 314 manns, og er að mér sýnist nú þegar orðin þéttsetin, verði sem fyrst orðin of lítil fyrir þá stóru kappleiki sem Tindastóll mun takast á við á komandi árum. Þá verður sætunum einfaldlega fjölgað og til þess að gefa tóninn um framhaldið vil ég afhenda þér þetta viðbótarsæti frá FISK Seafood sem vísi að því sem koma skal þegar stúkan þarf að stækka.

Gjörðu svo vel.“

Björn Jónasson skipstjóri Málmey SK1

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter

Drangey