Á nýju ári

 Í Fréttir

Kæra samstarfsfólk.

Án hafnar á Sauðárkróki hefði FISK Seafood aldrei orðið til. Og þar af leiðandi væri atvinnulífið sem byggst hefur upp hér í Skagafirði á undanförnum áratugum langt í frá hið sama. Ennþá síður hefði þróttmikið líf hér á Sauðárkróki, bæjarbragurinn sem okkur öllum þykir svo vænt um, orðið til nema fyrir þetta hjarta og lunga í verðmætasköpun atvinnulífsins. Hvert okkar fyrir sig, hver og einn starfsmaður FISK Seafood, hefur mikla hagsmuni af því að höfnin okkar sé fyrsta flokks. Sama gildir um landbúnaðinn í héraðinu, rækjuvinnsluna, steinullarverksmiðjuna og nánast allt annað atvinnulíf í Skagafirði. Höfnin er einfaldlega fjöreggið okkar og án hennar værum við væntanlega hvorki fugl né fiskur.

Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að höfnin þarfnast endurnýjunar. Ef hún er ekki samkeppnishæf við aðrar helstu hafnir landsins getum við aldrei orðið það heldur. Ekki bara við í FISK Seafood heldur við í Skagafirði. Sem betur fer virðist þokkalegur hljómgrunnur vera fyrir þessari brýnu þörf hjá fjárveitingarvaldinu og vonandi er að ríkið og sveitarfélagið taki tafarlaust saman höndum um þessa löngu tímabæru uppbyggingu nýrrar hafnaraðstöðu.

Orkuskiptin og aðrir umhverfisþættir kalla af ýmsum ástæðum á stærri fiskiskip. Ein þeirra er sú einfalda staðreynd að vistvænt eldsneyti tekur þrefalt meira pláss um borð heldur en olían. Án þess að nútímavæða innviðina, þ.e. að dýpka og stækka höfnina, mun flotinn úreldast og stöðugt stækkandi flutningaskip og skemmtiferðaskip eiga erfiðara með að athafna sig. Eða geta það hreinlega ekki. Um leið er samkeppnishæfni okkar í Skagafirðinum ógnað. Við viljum hafa öfluga inn- og útflutningshöfn. Við viljum fá til okkar stærri skemmtiferðaskip og um leið fleiri ferðamenn til þess að sækja okkur heim. Þá er eins gott að aðstaðan okkar verði ekki á næstu árum nánast orðin að gamaldags bryggju sem stenst nýjum kröfum nýrra tíma engan veginn snúning.

Mörgum kann að finnast þetta stór orð en þau eru engu að síður staðreynd. Um leið og ákvörðun hefur verið tekin um endurbætur mun FISK Seafood einnig bretta upp ermar í stórhuga umbótaverkefnum á Eyrinni. Fyrirhuguð nýbygging hátæknifrystihúss er þar fremst í flokki og það liggur í augum uppi að tilhögun hennar og umfang ræðst talsvert af því hvort fjárveiting fáist til hafnarframkvæmdanna á allra næstu misserum.

Enda þótt það hafi verið snúið að stíga ölduna á viðsjárverðum tímum í kjölfar Covid-faraldursins hefur okkur tekist að standa vörð um árangur okkar í grunnþáttum starfseminnar; veiðum, vinnslu og sölu. Skerðingar í veiðiheimildum þorsks og karfa gerðu okkur auðvitað lífið leitt og ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að sjómenn um allt land upplifðu styrkleika stofnanna sem afar góða. Við komumst þrátt fyrir þennan  endurtekna niðurskurð í veiðiheimildum hjá því að fækka skipum og náðum að halda þeim öllum í eðlilegri sjósókn. Vinnslan gekk fyrir vikið bærilega og salan sömuleiðis enda þótt með haustinu hafi byrjað að blása talsvert á móti.

Á öllum okkar erlendu mörkuðum stöndum við um þessar mundir frammi fyrir minnkandi kaupmætti almennings. Orkukostnaður heimilanna hefur margfaldast, vextir hækkað til muna og verðbólga aukist verulega. Kreppueinkennin eru augljós. Okkur hefur á nýliðnu ári tekist bærilega að sigla á milli skers og báru í miklum sveiflum vegna hennar og þar hefur i senn reynt á útsjónarsemi og aðlögunarhæfni fjölmargra starfsmanna sem staðið hafa vaktina í sölu- og markaðsmálunum.

FISK Seafood stendur fyrir vikið traustum fótum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi sínu. Stjórnvaldsákvarðanir um aflaheimildir geta samt alltaf sett stórt strik í reikninginn og þess vegna er mikilvægt að áhættan í sjósókninni dreifist eins mikið og kostur er. Í þeim efnum er þriðjungseignarhald okkar í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, sem m.a. er afar sterk í uppsjávarfiski, loðnu, síld, makríl og kolmunna, afar verðmætt. Þegar grannt er skoðað sýnist þessi fjárfesting okkar frá árinu 2018 mögulega vera sú stærsta og veigamesta í uppbyggingu og styrkleika FISK Seafood frá árdögum sjávarútvegs á Sauðárkróki.

Og alla tíð frá því grunnur var lagður að starfsemi FISK Seafood hefur mikill fengur verið að hinu dreifða eignarhaldi Kaupfélags Skagfirðinga. Þetta öfluga bakland um 1.600 félagsmanna kaupfélagsins skiptir FISK Seafood miklu máli. Að því leyti höfum við mikla sérstöðu á meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins.

Við horfum bjartsýnum augum fram á veginn. Í samstarfi við Fiskmarkað Snæfellsbæjar höfum við reist myndarlegt hús á Sandeyrinni sem til stendur að leigja undir starfsemi þessa öfluga fyrirtækis. Þegar það tekur til starfa síðar á árinu undir nafninu Fiskmarkaður Sauðárkróks hríslast ekki bara nýtt líf um æðar fiskvinnslu FISK Seafood heldur færist fjör í fjölmarga aðra sjávarútvegsstarfsemi í bænum. Ég er sannfærður um að með því að fá þessa miklu þekkingu, öflugu viðskiptatengsl og auknu umsvif hingað í Skagafjörðinn muni okkur takast að hækka afurðaverð okkar talsvert, fjölga störfum í Skagafirði, stórauka verðmæti króka- og vertíðarbáta, bæta afkomu trillukarlanna og smábátanna, hækka hafnargjöldin og efla um leið hag sveitarfélagsins.

Á nýliðnu ári gáfum við í fyrsta sinn út sjálfbærniskýrslu FISK Seafood. Það var mikil áskorun að safna saman stórum og smáum upplýsingum úr rekstrinum um umhverfisþætti, félagsþætti og stjórnarhætti fyrirtækisins. Og sjálfbærni starfseminnar snýst að sjálfsögðu ekki fyrst og fremst um skráningu upplýsinganna heldur samanburð þeirra við mælanleg markmið sem við höfum sett okkur af miklum metnaði.

Öll þessi nýju markmið og viðfangsefni breyta samt ekki þeim þremur leiðarstefum sem við höfum ávallt haft í forgrunni. Þau eru að vera traustur vinnuveitandi starfsmanna sinna, góður nágranni nærsamfélagsins og nærgætinn notandi þeirrar takmörkuðu auðlindar sjávar sem okkur er treyst til að nýta. Veigamiklir þættir í þeirri árvekni eru annars vegar að minnka kolefnisspor veiða og vinnslu eftir fremsta megni og hins vegar að hámarka verðmæti afurðanna á þeim harða alþjóðlega samkeppnismarkaði sem félagið starfar á.

Það er ykkur, kæra samstarfsfólk, að þakka að við mættum allt síðasta ár til leiks í þessa alþjóðlegu keppni með liðsheild sem hvergi gaf eftir í baráttunni. Við náðum góðum árangri í markaðs- og sölumálum enda með fyrsta flokks vöru og gott orðspor í farteskinu. Þegar upp er staðið er hagnaður FISK Seafood og dótturfélaga frá rekstri á síðasta ári um 3,7 milljarðar króna. Við lækkuðum skuldir um 1,6 milljarða og fjárfest var í fasteignum, tækjum og búnaði til sjós og lands fyrir tæplega 1,2 milljarða króna. Við erum því vel í stakk búin til þess að halda áfram kröftugri uppbyggingu á nýju ári.

Og svo nokkur orð frá mér í lokin á persónulegu nótunum. Ég kvaddi Óttar afa minn í byrjun síðasta árs og tengdaföður minn, Egil Viðar Þráinsson, um mitt árið. Ég veit að ég er ekki einn um það að hafa fylgt góðu fólki til grafar á árinu. Og ég er ekki heldur einn um að sakna traustra bakhjarla um áratugaskeið og jafnvel ævilangt. Ég vil samt nota þetta tækifæri þegar ég lít yfir nýliðið ár til þess að þakka þessum heiðursmönnum fyrir að hafa staðið með mér í gegnum þykkt og þunnt. Um leið vil ég óska ykkur gleðilegs árs með þökkum okkar Soffíu fyrir samveruna hér á Sauðárkróki sem hefur á allan hátt verið okkur hin ánægjulegsta.

 

Friðbjörn Ásbjörnsson

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter

Drangey