Gleðilegt ár.

 Í Fréttir

Gleðilegt ár

Kæra samstarfsfólk.

Viðburðaríkt ár hjá okkur í FISK Seafood er að baki. Árangurinn á öllum vígstöðvum okkar í veiðum, vinnslu og sölu var framar vonum. Hann grundvallaðist einkum á vel heppnuðum breytingum og framlagi ótrúlega öflugs hóps starfsmanna þar sem allir lögðust á árarnar af fullum þunga.

Fjárfestingar í nýjum tækjum og búnaði voru umtalsverðar á árinu. Fjárfest var í veiðiheimildum sem samsvarar alls fjögur þúsund tonnum og fengum tvö ný skip afhent sem leysa eldri skip af hólmi það er Farsæll og Sigurborgu. Við settum tæplega tvö hundruð milljónir í endurbætur og nýjan búnað um borð í Málmey og á árunum 19/20 munum við fjárfesta fyrir ríflega hálfan milljarð króna í nýrri tækni og tækjum í landvinnslunni á Sauðárkróki.

Á árinu styrktum við eignir félagsins um ríflega sex milljarða króna án þess að auka við skuldirnar. Enda þótt það sé ekki sérstakt markmið er ánægjulegt að sjá að eftir frammistöðu okkar er tekið. Kaup okkar og sala á hlutabréfum í Brimi voru kosin viðskipti ársins hjá Fréttablaðinu. Mikilvægast er að í þessum viðskiptum jókst fiskveiðikvóti okkar um heil tíu prósent með tilheyrandi verðmætasköpun til langrar framtíðar fyrir fyrirtækið, starfsfólkið og sveitarfélagið.

Við getum heilsað nýju ári full bjartsýni. Við höfum alla burði til þess að byggja ofan á þann grunn sem lagður hefur verið. Þar leikur markviss skráning og notkun upplýsinga úr rekstrinum stórt hlutverk. Við þekkjum smæstu atriði hins daglega reksturs og munum nýta þau til þess að bæta okkur á öllum sviðum, s.s. í afkomunni, öryggismálum, umhverfisþáttum, aðbúnaði starfsfólks og áfram mætti lengi telja.

Hluti af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem við berum er jafn réttur starfsfólks okkar til launa og vinnuumhverfis. Mér er mikil ánægja af því að upplýsa að undir lok ársins fékk FISK Seafood langþráða jafnlaunavottun þar sem staðfest er að enginn kynbundinn launamunur er til staðar í fyrirtækinu. Það er eitt af mörgum framfaraskrefum sem við höfum tekið og munum halda áfram að taka í starfsemi okkar á komandi árum.

Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um fárviðrið sem gekk yfir landið undir lok ársins. Í fyrsta lagi vil ég þakka áhöfnum Drangeyjar og Málmeyjar fyrir hetjulega framgöngu sína um borð í skipunum þegar mest gekk á og landfestar slitnuðu aftur og aftur. Björgunarsveitirnar eiga ekki síður þakkir skildar fyrir framgöngu sína jafnt á hafnarbakkanum sem víða um bæinn og sveitirnar í kring. Ég vil taka undir þau sjónarmið að veðrið hafi sent stjórnvöldum skýr skilaboð um þörfina fyrir uppbyggingu til aukins öryggis. Alvöruhöfn á Sauðárkróki er eitt þeirra verkefna enda núverandi hafnaraðstaða löngu orðin óviðunandi miðað við stærð fiskiskipanna og fjölda fraktskipa sem hingað koma á hverju ári.

Ég ítreka þakkir mínar til starfsfólksins fyrir sitt dýrmæta framlag og samheldni. Sömu þakkir færi ég stjórn FISK Seafood sem stóð þétt saman í ákvörðunum sínum.

Ég óska þér og þínum gleðilegs árs með kærri þökk fyrir það liðna.

2.janúar 2020

Friðbjörn Ásbjörnsson

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter