Rugluð ráðgjöf

 Í Drangey SK 2, Fréttir, Málmey SK 1

Allan hringinn í kringum landið erum við sjómenn að upplifa mokfiskerí bæði grunnt og djúpt og nánast á hvaða veiðarfæri sem er. Sjórinn er sem sagt kjaftfullur af fiski. Á sama tíma ákveður Hafrannsóknastofnun að skera veiðiheimildir í þorski niður um 6% til viðbótar við 13,5% niðurskurð í fyrra. Í karfa er niðurskurðurinn á milli ára hvorki meira né minna en 20% enda þótt hann mokveiðist hvar sem menn bleyta í veiðarfærum.

Ágúst Ómarsson, skipstjóri á Drangey SK2

Ágúst Ómarsson, skipstjóri á Drangey SK2

Villigötur Hafró eru því miður alltof vel þekktar á síðustu árum og áratugum. Það er hins vegar verra þegar ráðherra matvæla og um leið sjávarútvegs lýsir því yfir fyrir nokkrum dögum að það sé stefna stjórnvalda að fara í einu og öllu að ráðgjöf þeirra sem gefa sér rangar forsendur í reikniforritum og fá fyrir vikið kolvitlausa útkomu. Hvaða pólitíska linkind er það? Á eina ferðina enn að hneigja sig og beygja fyrir E-listanum, „Embættismannalistanum“ sem öllu ræður en hefur aldrei verið kosinn? Það er að okkar mati galin afstaða hjá ráðherra og ráðuneyti sem verður að hafa þekkingu og reynslu til þess að mynda sér sjálfstæða skoðun á því hvað sé rétt og rangt þegar um er að ræða verðmæti sem skipta tugum eða jafnvel hundruðum milljarða króna fyrir þjóðarbúið.

Við höfum sem betur fer á síðustu áratugum öðru hvoru haft sjávarútvegsráðherra sem hafa staðið í lappirnar og jafnvel farið þvert á ráðleggingar Hafró þegar vitleysan hefur keyrt um þverbak. Þess eru jafnvel dæmi að ráðherra hafi ekki einungis neitað að skerða kvóta heldur þvert á móti beinlínis aukið hann. Okkur vitanlega hefur aldrei verið á það bent, eða að minnsta kosti aldrei verið sannað, að slíkar ákvarðanir hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Björn Jónasson, skipstjóri á Málmey SK1

Björn Jónasson, skipstjóri á Málmey SK1

Svo virðist hins vegar að um þessar mundir hyggist ráðherrann ekki einu sinni skoða útkomuna heldur samþykkja hana óséð. Samt er óvissan í forsendunum, og þar af leiðandi niðurstöðunum, gríðarleg. Vísindamenn hafa viðurkennt að nánast sé útilokað að telja íslensku hreindýrin enda þótt stofninn sé lítill og allur á þurru landi. Á sama tíma virðist Hafró geta talið fiskana í sjónum af mikilli nákvæmni og tekið alls kyns illa ígrundaðar og jafnvel ruglaðar ákvarðanir þvert á veiðireynslu sjómanna með áratuga reynslu á miðunum.

Hafró fer með loðnukvótann upp úr öllu valdi þessa dagana án þess að depla auga. Samtímis murkar stofnunin svo lífið úr bolfiskveiðum, bindur fjölda fiskiskipa við bryggju og sviptir hundruð sjómanna og fiskverkafólks atvinnu sinni. Ráðherrann ætlar ekki einu sinni að skoða málið.

Við höfum fylgt vísindalegri ráðgjöf um fiskveiðarnar að verulegu leyti í 30 ár og síðustu 5-6 árin án nokkurra undantekninga. En alltaf minnkar tiltrú sjómanna á að rétt sé að málum staðið. Sjórinn er alls staðar spriklandi af lífi en samt er skorið niður eins og enginn sé morgundagurinn. Ráðgjöfin er ekki bara að okkar mati, heldur langflestra reyndustu skipstjóra og sjómanna landsins, algjört rugl.

Við skorum á ráðherra sjávarútvegsins að kalla á nokkra af reynsluboltum sjómannastéttarinnar á sinn fund, kíkja jafnvel í veiðidagbækur skipanna og kynna sér raunveruleikann í lífríki sjávar eins og hann blasir við þeim sem vinna á sjónum. Best væri auðvitað ef slíkt samtal leiddi til þess að ráðherra skapaði samráðsvettvang á milli skipstjórnarmanna og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Í fiskveiðiheimildunum er öll þjóðin á sama báti og óþolandi að á milli þeirra sem sækja sjóinn og hinna sem skammta þeim veiðiheimildir sé stöðugt stríð.

 

Björn Jónasson, skipstjóri á Málmey SK1

Ágúst Ómarsson, skipstjóri á Drangey SK2

 

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter