Móttaka á Drangey SK-2
Það var mikill gleðidagur í Skagafirði á laugardaginn var, þann 19. ágúst, þegar tekið var á móti nýjum togara fyrirtækisins, Drangey SK-2 og áhöfn hans.
Skipið sigldi af stað frá Tyrklandi föstudaginn 4. ágúst og tók því siglingin heim um hálfan mánuð. Mikið fjölmenni var saman komið þegar skipið kom í heimahöfn á Sauðárkróki. Það var hátíðleg athöfn á bryggjunni þar sem Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood ávarpaði gesti ásamt Þórólfi Gíslasyni kaupfélagsstjóra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra og Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra Skagafjarðar. Sr. Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur blessaði skipið og áhöfn þess og færði skipsstjóranum Snorra Snorrasyni biblíu að gjöf frá Sauðárkrókskirkju.
Það var svo Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem gaf skipinu nafnið Drangey. Það gerði hann í minningu föður síns, Stefáns Guðmundssonar, sem var forystumaður í sjávarútvegi í Skagafirði um langa hríð.
Við viljum þakka öllum þeim sem samfögnuðu með okkur laugardaginn 19. ágúst fyrir komuna.
Myndband frá heimkomu Drangeyjar SK-2.