Tæknibylting í vinnslusal FISK Seafood á Sauðárkróki.

 Í Fréttir, Landvinnsla

Í dag var gengið frá kaupum á öflugum liðsauka í vinnslusalinn og er ráðgert að hann taki til starfa undir haustið. Um er að ræða pökkunarróbót sem hátæknifyrirtækið Valka þróaði sérstaklega fyrir okkur og færibandið er það fyrsta sinnar tegundar sem flokkar, vigtar og pakkar frosnum flökum. Það er FISK Seafood mikil ánægja að ganga frá þessum stóra og metnaðarfulla samningi á þessum erfiðu tímum í samfélaginu. Tímasetningin er e.t.v. táknræn fyrir það að bæði er farið að sjá örlítið til sólar í veirufaraldrinum og sömuleiðis í vorinu sem bankar stöðugt upp á hjá okkur þessa dagana.

Kaupin á nýju pökkunarvélinni eru enn ein staðfesting þess að við hjá FISK Seafood erum að hugsa og fjárfesta til langrar framtíðar. Hagræðingin er fyrst og fremst fólgin í nákvæmni við vigtun en enginn vafi er á að yfirvigtin verður minni en með mannshöndinni og hvert prósentustig í þeim efnum skiptir gríðarlegu máli fjárhagslega. Sömuleiðis sparast mannskapur við færibandið og þær hendur verða kærkomnar í öðrum mikilvægum verkefnum í vinnslunni.

Fjárfestingin í tækjabúnaðinum er u.þ.b. eitt hundrað milljónir króna og standi afköstin og gæðin undir væntingum er ekki vafi á því að hún muni borga sig upp á viðunandi tíma og skila okkur eftir það góðum hagnaði. Það hefur líka verið ánægjulegt að upplifa það síðustu mánuðina hvað starfsfólk Völku hefur verið áhugasamt í þróunarferlinu. „Þetta er afar stór dagur í okkar huga“, sagði Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Völku, sem smellti meðfylgjandi mynd af „rafræna handsalinu“ þegar samningurinn var undirritaður í morgun. „17. apríl verður okkur ógleymanlegur því þetta er fyrsta pökkunarvélin af þessu tagi sem við hönnum fyrir frosin flök og ef vel tekst til gefur hún vafalaust tóninn til langrar framtíðar sambærilegra véla víða um heim.“

Myndin: Guðjón Ingi Guðjónsson, sölustjóri hjá Völku, og Ásmundur Baldvinsson, yfirmaður landvinnslu FISK Seafood, „handsala“ samninginn í takti við tíðarandann.

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter