Tímabær tiltekt að innan sem utan og fyrirheit um vandað viðhald

 Í Fréttir, Landvinnsla

 

Sumartiltektin hjá okkur í FISK var í stærri kantinum þetta árið svo ekki sé meira sagt. Afraksturinn hefur ekki farið fram hjá neinum sem þokkalega þekkir til á Hofsósi, Sauðárkróki og Skagaströnd. Á öllum stöðunum hefur athafnasvæði FISK tekið miklum stakkaskiptum enda hafa tugir tonna af drasli verið fjarlægðir í tæplega 100 gámum og ríflega eitt þúsund og fimm hundruð lítrum af málningu verið penslað og rúllað á húsakynni okkar bæði að innan og utan. Guli liturinn hefur vikið fyrir þeim hvíta í samræmi við litinn á skipunum, möl hefur verið lögð langþráðu malbiki, gólf lagfærð, uppsetning í vinnslusölum endurskipulögð, tækjabúnaður endurnýjaður og áfram mætti lengi telja.

Og það er ekki nóg með að við höfum lyft Grettistaki í þessari miklu og tímabæru tiltekt heldur erum við ákveðin í að tjalda ekki til einnar nætur í andlitslyftingunni. Þess vegna hefur Haraldur Birgisson verið ráðinn í það nýja starf hjá FISK að sjá til þess að aldrei muni sækja í sama farið aftur á útisvæðinu þar sem hann mun bæði þjóna útgerðinni og landvinnslunni. Eins og margir vita hefur Haraldur verið á sjónum fyrir FISK í meira en þrjátíu ár og í langan tíma sem afar vandvirkur og farsæll bátsmaður á Málmey SK 1. Þar snýst verkefnið ekki hvað síst um að sjá til þess að allt sé á sínum stað og í standi á dekkinu og segja má að nú verði það hlutverk Haraldar að tryggja það sama hjá okkur í landi.

Haraldur er í senn fullur tilhlökkunar og svolitlum trega. „Það er auðvitað stórt skref að koma í land eftir öll þessi ár. Á móti kemur að það er virkilega gaman að taka við svona snyrtilegu athafnasvæði og bera ábyrgð á því að það drabbist ekki niður. Vonandi verður þetta átak FISK öðrum í bænum, og ekki síst sveitarfélaginu sjálfu, hvatning til þess að bretta líka upp ermarnar. Ef heimþráin til sjómennskunnar verður óbærileg get ég samt vonandi söðlað um aftur þegar búið er að koma þessari viðhaldsvinnu í farveg. Mér þykir vænt um traustið og er staðráðinn í að gera þetta vel.“

 

 

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter