Umhverfisdagurinn 2023

 Í Uncategorized
Ljósmynd: Davíð Már Sigurðsson

Ljósmynd: Davíð Már Sigurðsson

Umhverfisdagurinn okkar var haldinn 6. maí síðastliðinn.

Umhverfisdagurinn er fjölskyldudagur þar sem fjölskyldur eru hvattar til að sameinast í útiveru með það að markmiði að fegra nærumhverfið og í leiðinni að styðja við það frábæra íþróttastarf sem fer fram í Skagafirði. Í ár hétum við því að styrkja það skagfirska íþróttastarf sem hver þátttakandi valdi um 12.000 kr. gegn þátttöku. Alls mættu 754 einstaklingar fyrir 15 íþróttafélög þannig að samtals greiddum við íþróttafélögunum rúmar 9 milljónir.

Verkefnið hefur stækkað ár frá ári og sem dæmi má nefna að tiltektarsvæðið á Sauðárkróki árið 2022 var frá Steinullarverksmiðjunni, meðfram strandlengjunni að vestari vatnabrúnni. Í ár stækkuðum við umfangið á Sauðárkróki töluvert, tekið var til frá afleggjaranum út á Reykjaströnd að austari Vatnabrúnni auk þess sem tekið var til á Nöfunum.

Eftir vel unnið verk hittumst við að Sandeyri 2 í nýju húsnæði Fiskmarkaðar Sauðárkróks og fengum okkur að borða og bárum saman bækur um hvernig hafði tekist til.

Í ár tókst okkur að safna saman og farga 18.370 kg af rusli og er það 9.670 kg meira heldur en í fyrra!

Okkur langar að koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem gáfu sér tíma bæði til að aðstoða við skipulagningu og framkvæmd á verkefninu, einnig öllum þeim einstaklingum sem mættu og létu verkin tala, án alls þessa frábæra fólks væri svona verkefni ekki framkvæmanlegt.

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter