Kærkomin vélvæddur vinnuþjarkur

 Í Fréttir, Landvinnsla

Mynd: Bila Flex sparar mörg handtökin en ennþá er hlekkur á milli pökkunar- og röðunarþjarkanna þar sem mannshöndin hefur ekki verið leyst af hólmi.

Kærkominn vélvæddur vinnuþjarkur

Það er ekki slegið slöku við í tæknivæðingu landvinnslunnar á Sauðárkróki.  Fyrir nokkrum dögum sögðum við frá kaupum á pökkunarþjark sem ráðgert er að taka í notkun í haust og í gær var gengið frá samningum við Plastco um kaup á sjálfvirkum þjarka í brettaröðun ásamt vafningsvél og öðru tilheyrandi sem létta mun störfin verulega.

„Þau hreystimenni eru reyndar til sem vilja gjarnan fá borgað fyrir líkamsræktina sína en það er talsverð erfiðisvinna að stafla ellefu kílóa þungum kössum upp í yfir tveggja metra hæð á brettunum. Þess vegna verður þessi róbót og allt sem honum fylgir kærkomin viðbót við pökkunarþjarkinn frá Völku“ segir Ásmundur Baldvinsson sem stýrir landvinnslunni ásamt góðum hópi samstarfsfólks.

Nýi tækjabúnaðurinn kostar um 50 milljónir króna og er framleiddur af danska stórfyrirtækinu Bila A/S sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu róbóta.  Hjá fyrirtækinu starfa um 350 manns og eru fjölmargir þjarkar frá því nú þegar að störfum hér á landi, m.a. í mjólkuriðnaðinum.

Bila Flex þjarkurinn stendur undir nafni með því að vera afar sveigjanlegur í verkefnum sínum hvað varðar stærðir, þyngd, innihald, geymsluaðferðir o.s.frv. Í sinni einföldustu mynd tekur hann við lokuðum kössum, staflar þeim á bretti, vefur hliðarnar, setur hlífðaryfirbreiðslu ofan á staflann og niður með hliðum hans, pappahlífar á horn brettanna og að lokum létta plastfilmu utan um stæðuna. Þar með er hún tilbúin fyrir lyftarann og flutning annað hvort inn í geymslu eða gám.

Ráðgert er að tæknimenn frá Bila gangsetji nýja þjarkinn í ágústmánuði svo fremi sem búið verði að losa um þær takmarkanir á ferðalögum á milli landa sem nú eru í gildi.

 

 

 

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter