FISK Seafood fær „hjálparhönd“

 Í Landvinnsla

Á undanförum 2 árum hefur FISK Seafood haft það að markmiði að leysa erfið og einhæf störf af hólmi með tæknivæðingu. Það er óhætt að segja að síðasta vika hafi verið söguleg hjá félaginu en þá var fyrsti þjarkurinn tekinn í notkun. Þjarkurinn er staðsettur í pökkunarenda landvinnslunnar á Sauðárkróki og er hann forritaður til að raða kössum með lokaafurð á bretti, setja hornalista á kassastæður og plasta þær. Þjarkurinn er armur af gerðinni Bila Flex og notast við sogskálar til að lyfta kössum.

Heimasíðan ræddi við Ásmund Baldvinsson yfirmann landvinnslunnar á Sauðárkróki sem var ánægður með þessa nýjung: „Róbótinn er kærkomin viðbót í tæknivæðinguna hjá okkur. Helsta verkefni hans er að raða 11 kg kössum á bretti í tólf hæðir auk þess að leggja millispjöld á milli raða. Hann sendir svo brettið í vafningsvél sem vefur brettið með strekkifilmu ásamt því að setja á það styrktarhorn. Uppsetningin og fyrstu dagarnir hafa gengið mjög vel“.

Skrifaðu hér fyrir neðan og smelltu á Enter